Ekki sést eins mikið af loðnu í mörg ár

Mikil og góð veiði hefur verið á loðnumiðunum og segja elstu sjómenn, að ekki hafi sést eins mikið af loðnu í sjónum í langan tíma og á þessari vertíð. Vel hefur gengið hjá uppsjávarskipum Eskju á vertíðinni og voru þau bæði við bryggju í morgunsárið, Jón í löndun og Aðalsteinn að koma í land.

Jón Kjartansson kom til hafnar í gærkvöldi með fullfermi og fór aflinn í hrognatöku í mjöl-og lýsisvinnslu Eskju. Að sögn Grétars Rögnvarsson, skipstjóra á Jóni lítur loðnan vel út. ,,Loðnan er stór og góð og það er mun meira af henni en undanfarin ár. Vertíðin hefur gengið mjög vel hjá okkur. Skipin eru nú að veiða við Breiðafjörðinn, þannig að það er orðin löng sigling á miðin.” Jón Kjartansson hélt til veiða aftur eftir hádegi í dag. Aðalsteinn Jónsson kom svo til hafnar í morgun með fullfermi og fer aflinn einnig í hrognatöku í mjöl-og lýsisvinnslu Eskju. Daði Þorsteinsson, skipstjóri á Aðalsteini segir þetta vera besta loðnutúrinn þeirra til þessa. ,,Það gekk mjög vel hjá okkur í þessum túr, við vorum í níu tíma að fylla skipið, þannig að þetta var án efa okkar besti túr á vertíðinni, það small allt saman hjá okkur, bæði áhöfn og skip.” Aðalsteinn Jónsson mun halda til veiða að löndun lokinni.

Um 4000 tonn eftir
Benedikt Jóhannsson, útgerðastjóra Eskju segir vertíðina hafa gengið mjög vel hjá Eskju. ,,Við erum mjög ánægð með hvernig hefur gengið hjá skipunum á loðnuvertíðinni. Veiðin hefur verið góð, loðnan stór og góð og veðrið hefur verið eins og best verður á kosið á þessum árstíma.” Benedikt segir lítið eftir af loðnukvóta Eskju, eða rétt um 4000 tonn sem er líklegast einn túr á skip. Að loðnuvertíð lokinni munu uppsjávarskip Eskju halda beint til kolmunaveiða.

 

Myndin er tekin í blíðunni á Eskifirði í morgun þegar Aðalsteinn Jónsson var út á firði að strekkja á vírunum.