Hver fiskur myndaður í nýju frystihúsi Eskju

Eskja hefur tekið í notkun frystihús á Eskifirði sem kostar fullbúið fjóra og hálfan milljarð króna. Nýja húsið er búið nýjustu tækni í flokkun og frystingu uppsjávarafla og þar urðu til 40 vertíðarstörf í landi.
Nýja uppsjávarfrystihúsið á Eskifirði er 7000 fermetrar að stærð og reis hratt. Einungis um sjö mánuðir liðu frá því að framkvæmdir hófust þar til fyrsta síldin fór að streyma um húsið. Áður var aflinn að mestu frystur um borð í skipum og við breytinguna fækkaði störfum á sjó en fjölgaði umtalsvert í landi. „Við erum að skapa störf fyrir 40 manns þegar vaktir eru þannig að það breytir svolitlu. Reyndar þurftum við aðeins að leita út fyrir svæðið enda er á þessu svæði nóga vinnu að hafa,“ segir Hlynur Ársælsson, verkstjóri uppsjávarvinnslu Eskju.

Landvinnslan býður upp á meiri og plássfrekari tækni en sjófrysting og í nýja húsinu gefur að líta eina helstu tækninýjungina í verksmiðjunni; röð af myndgreinum sem taka mynd af hverjum fiski, henda frá skemmdum fiski og öðrum tegundum sem slæðast með. Þá vigta vélarnar vandlega og velja síðustu fiskana sem fara í hvern poka. Það borgar sig að tryggja þannig nákvæma skömmtun enda væri annars dýrt að gefa hálfan fisk með hverri pakkningu. Í nýja frystihúsinu næst líka að gera meiri verðmæti úr aflanum. „Það fer meira af afurðinni en áður hjá Eskju til manneldisvinnslu. Svo er afkastageta vinnslunnar það mikil að við náum að halda gæðum í toppi. Þetta gengur hratt upp úr skipunum þegar þetta er komið upp í full afköst,“ segir Hlynur.

Ruv.is greindi frá.