Norsku skipin lönduðu 8400 tonnum hjá Eskju

Nú hafa norðmenn veitt þau 59 þúsund tonn sem þeir fengu úthlutað af loðnukvóta hér við land. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð siglinga fóru síðustu norsku loðnuskipin héðan í gærmorgun. Norsku skipin lönduðu mikið á Austurlandinu síðustu vikur og fékk Eskja hf. 24 landanir til sín. Að sögn Agnars Akraberg Poulsen, verksmiðjustjóra í uppsjávarfrystihúsi Eskju gengu landanirnar vel. ,,Norska skipið Manon kom hér fyrst og síðast og fengum við þrjár landanir frá þeim. Þetta gekk yfir höfuð nokkuð vel fyrir sig og lönduðu norsku skipin 8400 tonnum hér hjá Eskju. Það fóru um 6000 tonn í gegnum frystihúsið og 2400 tonn í bræðsluna.”

Agnar segir að nýja frystihúsið sé að koma mjög vel út en þó hafi verið nokkrir hnökrar í upphafi. ,,Við höfum verið í smá vandræðum með pokavélarnar hjá okkur en það fer nú vonandi að lagast. Full vinnslugeta í frystihúsinu þegar loðnan er, á að vera um 1000-1100 tonn á sólahring og við bindum miklar vonir um að við förum að ná því fljótlega.”