ESKJA HF.

Eskja hf, sem áður hét Hraðfrystihús Eskifjarðar, var stofnað 8. maí 1944 og var tilgangurinn með stofnun þess að skjóta stoðum undir fábreytt atvinnulífi bæjarins, Stofnendur félagsins voru nokkuð á þriðja hundrað einstaklingar og fyrirtæki á staðnum. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Leifur Björnsson. Fljótlega eftir stofnun félagsins var hafist handa við byggingu frystihúss og hófst vinnsla þar 1947. Fyrstu starfsárin fékk félagið hráefni frá bátum er stunduðu aðallega veiðar með línu frá maí á vorin og frameftir hausti, en fóru á vertíð suður með sjó á vetrum. Einnig kom töluvert hráefni af smábátum yfir sumartímann.

NÝTT HLUTAFÉ

Á seinni hluta 6. áratugarins hafði rekstur Eskju hf. gengið erfiðlega, og leiddi það til þess að tveir aðilar komu með nýtt hlutafé inn í félagið árið 1960, þeir bræður Aðalsteinn og Kristinn Jónssynir, og eignuðust 2/3 hlutafjár í félaginu, og tóku við stjórn þess. Ingólfur Hallgrímsson sem verið hafði framkvæmdastjóri félagsins frá 1949 lét af störfum. Aðalsteinn Jónsson tók þá við starfi forstjóra og Kristinn varð stjórnarformaður. Það er ekki ofsögum sagt að forstjóratíð Aðalsteins hafi verið tími mikillar uppbyggingar hjá fyrirtækinu þar sem kjarkur og áræði eldhugans breyttu nánast gjaldþrota félagi sem aðeins átti frystihús í fjörukambinum á Eskifirði, í eitt stærsta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með fjölbreytta og sterka starfsemi. Aðalsteinn gengdi forstjórastarfinu tiláramóta 2000/2001 eða alls í 40 ár sem án vafa eru mestu uppgangsár í sögu Eskifjarðar og enginn efast um að af öðrum ólöstuðum er þáttur Aðalsteins þar stærstur. Við starfi Aðalsteins sem forstjóri tók Elfar Aðalsteinsson, en hann var áður framkvæmdastjóri Fiskimiða hf.

SKIPASTÓLLINN STYRKUR

Árið 1959 eignaðist félagið sitt fyrsta skip Hólmanes, sem var 130 tonna stálbátur smíðaður í Noregi, og var gert út á línu- og netaveiðar, svo og á síldveiðar. Á árunum 1962-1970 eignaðist félagið nokkur skip að stærðinni 150-260 tonn, sem gerð voru út á línu-og netaveiðar, síldveiðar og togveiðar. Árið 1970 voru skipin seld og keyptur í staðinn skuttogari frá Frakklandi sem fékk nafnið Hólmatindur, og var hann annar af 2 fyrstu skuttogurum sem komu til landsins. 1980 var honum skipt út fyrir stærri togara sem fékk sama nafn. Árið 1972 var gengið til samstarfs við Kaupfélag Héraðsbúa um kaup á öðrum skuttogara er byggður var á Spáni. Var stofnað sérstakt hlutafélag um rekstur hans, Hólmi hf. Skipið kom til landsins í ársbyrjun 1974 og fékk nafnið Hólmanes. Hvort félag fékk helming afla skipsins til vinnslu, en Eskja hf. sá um rekstur þess. Þessu félagi var skipt upp 1996 og sameinað rekstri Eskju hf.

MJÖL OG LÝSISVINNSLA HEFST

Árið 1952 var tekin í notkun hjá félaginu fiskimjölsverksmiðja fyrir fiskúrgang, en hún gat einnig unnið síld í smáum stíl. Á síðustu árum 6. áratugarins jukust síldveiðar við norður-og austurland til muna, og 1963 var verksmiðjan stækkuð og endurbætt fyrir síldarbræðslu, og var eftir það stór liður í rekstri félagsins.Árið 1966 var síðan reist ný og afkastamikil verksmiðja á nýju hafnarsvæði fyrir botni fjarðarins. Verksmiðjan hefir síðan verið endurbætt og afköst aukin, fyrst á árunum 1977-1978 og síðan árin 1994-1995. Var þá komið fyrir loftþurrkun á mjöli og um leið hvarf að mestu leiti mengun frá verksmiðjunni. Byggðir voru 6 tankar til geymslu á mjöli. Öll framleiðsla verksmiðjunnar í dag er hágæðamjöl sem nýtt er til fiskeldis. Afköst hennar eru 1.100 tonn á sólarhring.

1967-1968 hvarf síldin að Íslandsmiðum, en fljótlega þar á eftir hófust veiðar á loðnu til bræðslu. Eftir því sem þær veiðar jukust var talið nauðsynlegt að félagið eignaðist skip til hráefnisöflunar, og árið 1978 keypti félagið 780 tonna skip er fékk nafnið Jón Kjartansson SU-111. 1982 keypti félagið annað skip, 360 tonn, er fékk nafnið Guðrún Þorkelsdóttir SU-211. Þá stækkaði flotinn enn er Hólmaborg SU-11 var keypt.

Á árunum 1997-1999 voru skipin endurbyggð og stækkuð í Póllandi og settar stærri vélar í Jón Kjartansson og Hólmaborg ásamt öflugum flottrollsbúnaði sem er nauðsynlegur fyrir kolmunnaveiðar sem hafa aukist mjög síðustu árin. Eru þær í dag ásamt loðnuveiðum uppistaða í veiðum skipanna.

NÝIR TÍMAR – NÝJAR ÁHERSLUR

Árið 1988 var hafin rækjuvinnsla í húsnæði sem keypt hafði verið af Jóni Kjartanssyni hf. Rekstur hennar gekk vel og reyndust rækjumið út af Austfjörðum fengsælli en áður hafði verið álitið. Til að svara kröfum kaupenda svo og til að auka afköst, var byggð ný og fullkomin verksmiðja að Strandgötu 14, og tók hún til starfa í maí 1999. Starfsemi verksmiðjunnar var lögð af um áramótin 2002/2003 vegna langvarandi erfiðleika að völdum verðhruns afurða í kjölfar offramboðs á erlendum mörkuðum.

Eftir því sem félagið elfdist og umsvif jukust, þótti nauðsynlegt að koma upp eigin aðstöðu til að þjónusta skip og annan rekstur félagsins. 1964 var stofnað vélaverkstæði, og síðar rafmagns-og bílaverkstæði. Þessar deildir voru síðan seldar 2001 og 2002 til aðila sem hyggjast halda þessum rekstri áfram og halda áfram þjónustu við Eskju.

Árið 1997 var hafinn rekstur nótastöðvar í nýju húsnæði að Hafnargötu 5. Rekstur netaverkstæðisins sem þjónað hafði togaraútgerðinni í áratugi var sameinaður nótastöðinni.   Árið 2005 seldi Eskja rekstur nótastöðvarinnar til Egersund Trål A/S og hefur félagið byggt upp, á grunni gömlu nótastöðvarinnar, eina fullkomnustu nótastöð á landinu sem þjónar skipum Eskju sem og öðrum skipum í uppsjávarflotanum.

1986 flutti félagið í nýtt skrifstofuhúsnæði að Strandgötu 39, hannað af Ingimundi Sveinssyni arkitekt, en um árabil hafði skrifstofuaðstaðan verið á hálfgerðum hrakhólum.

Árið 1998 keypti félagið allt hlutafé í Útgerðarfélaginu Triton hf., sem átti bolfisk og rækjuveiðiskipið Gest SU. Skipið heitir nú Votaberg SU-10. Triton hf. var sameinað Eskju hf. að fullu í ársbyrjun 2000.

Um áramótin 2001/2002 var allt hlutafé í Útgerðarfélaginu Vísi í Sandgerði keypt.  Bátur félagsins  var seldur en allur kvóti sem félagið átti, um 550 þorskígildi, runnu til Eskju hf, í sameiningu félaganna.

2002 eignaðist Eskja hf, síðan 47,48% hlutafjár í Tanga hf, á Vopnafirði en hann var seldur aftur um leið og gengið var frá kaupum á öllum hlutabréfum í Hópi ehf. og Strýthóli ehf., í Grindavík.  Með þeim kaupum eignast Eskja hf,  umtalsverðan þorskkvóta.

Á aðalfundi 2003 var samþykkt að breyta nafni félagsins, úr Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf, í Eskja hf.   Var þetta gert til að svara kröfum um þjálla nafn til að nota í samskiptum við erlenda viðskiptaaðila og til að auka möguleika félagsins til að selja framleiðslu sína undir eigin vörumerki.

Í ársbyrjun 2003 var ákveðið að selja annan skuttogara félagsins, Hólmatind og hætta starfsemi rækjuvinnslunnar.   Henni var lokað í janúarlok og í framhaldi af því var hætt að gera út skipin Votaberg og Guðrúnu Þorkelsdóttur vegna kvótaleysis á þau skip.   Þessar eignir, ásamt skuttogaranum Hólmanesi voru síðar lagðar inn í rækjuvinnslufyrirtækið Íshaf á Húsavík en Eskja fékk í staðinn nýlegan skuttogara, Ask,  sem fékk nafnið Hólmatindur.  Íshaf hf. lagðist af 2005.

2004 keypti Hólmi hf, nýtt fyrirtæki í eigu Elfars Aðalsteinssonar, Kristins Aðalsteinssonar og hjónanna Bjarkar Aðalsteinsdóttur og Þorsteins Kristjánssonar, arftaka Aðalsteins Jónssonar, allt hlutafé í Eskju hf., og í framhaldi af því var fyrirtækið tekið af hlutabréfamarkaði.

Í árslok 2004 lét Elfar Aðalsteinsson af störfum sem forstjóri Eskju og í framhaldi af því keyptu þau Kristinn, Þorsteinn og Björk, ásamt Fjárfestingafélaginu Bleiksá hf, hlut Elfars í félaginu.  Í framhaldi af þessu voru Eskja hf og Hólmi hf sameinuð.    Haukur Björnsson  varð framkvæmdastjóri Eskju í framhaldi af þessum sviptingum.

Í ársbyrjun 2006 keypti Eskja hf, fjölveiðiskip með frystingu um borð.   Skipið fékk  nafnið Aðalsteinn Jónsson SU 11.   Það var byggt í Noregi 2001 er 70 metra langt og 1700 brúttó rúmlestir.  Þetta skip er útbúið sem vinnsluskip og getur sjófryst uppsjávarfisk, loðnu, kolmunna og síld auk þess að veiða fyrir mjöl og lýsisvinnslu.

2007 keyptu síðan hjónin Björk Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson hlut Kristins Aðalsteinssonar í Eskju hf.

Í ársbyrjun 2007 rak Eskja frystihús, og loðnubræðslu og gerði út skuttogarann Hólmatind og uppsjávarveiðiskipin Aðalstein Jónsson og Jón Kjartansson auk þess skrifstofuhalds sem verið hafði.  Öll þjónusta við deildir félagsins var keypt af öðrum.

Í kjölfar verulegrar skerðingar á bolfiskkvóta 2007 var ljóst að rekstrargrunnur bolfiskfrystingar var ekki lengur fyrir hendi þrátt fyrir ítrekaðar hagræðingar og skipulagsbreytingar síðustu ára. Því var sú ákvörðun tekin að hætta rekstri frystihúss Eskju frá og með nóvember 2007.

Skuttogarinn Hólmatindur var í framhaldi af þessu seldur og hélt til nýrra eigenda í nóvember 2007.   Með því lögðust bolfiskveiðar félagsins niður að sinni.

Í september 2010 hóf Eskja á ný bolfiskvinnslu í Hafnarfirði og gerir einnig út línubátinn Hafdísi SU 220 sem sér vinnslunni fyrir hráefni ásamt því sem keypt er á mörkuðum.  Bolfiskvinnsla Eskju vinnur ferskan fisk og selur á kröfuhörðustu markaðssvæðin í Evrópu.

Stjórn Eskju ákvað árið 2012 að ráðast í að rafvæða fiskimjölsverksmiðju félagsins ásamt því að ráðast í endurbætur á verksmiðjuhúsnæði, reisa skorstein, hreinsivirki og nýja starfsmannaaðstöðu.  Var verkið klárað í júní 2013 og keyrir nú verksmiðjan einungis á raforku.  Með þessarri breytingu hefur verið stigið stórt skref í umhverfisstefnu fyrirtækisins þar sem nú nýtt sjálfbær og umhverfisvæn orka en ekki jarðeldsneyti.