HAF

Ný starfsmannastefna Eskju, skammstöfuð H.A.F. er nú kynnt í fyrsta sinn og stendur fyrir orðin heilindi, atorka og færni. Þessir þrír þættir eru hverjum manni mikilvægir og stuðla að auknum þroska og uppbyggingu einstaklingsins. Saman standa þessi orð fyrir hugmyndafræði nýrrar starfsmannastefnu og leggja um leið grunninn að fyrirtækismenningu okkar. Heilindi starfsmanna eru einn af hornsteinum hvers fyrirtækis – þar sem samkennd og mannleg virðing eru í öndvegi. Heiðarleiki er einn af grunnþáttum heilinda og af heiðarleika fæðist traust og áreiðanleiki sem fyrirtækið byggir orðspor sitt á.  Atorkan er sá frumkraftur er ríkja þarf hjá starfsfólki sem umbreytist í vilja til góðra verka og nýrrar hugsunar. Hún er einnig viljinn til þess að halda áfram þegar á móti blæs og er getan til þess að snúa erfiðum aðstæðum í tækifæri.

Færni byggist á því að nýta eiginleika og styrk okkar sem best, takast á við síbreytilegt umhverfi og auka þekkingu okkar og getu í krefjandi samfélagi. Nútímaumhverfi er síkvikt og breytingar eru daglegt brauð. Það er því mikilvægt fyrir starfsfólk Eskju að eiga möguleika á að auka færni sína til þess að mega vaxa og dafna samhliða starfi sínu.

Það er við hæfi að þessi þrjú orð skammstafi HAF. Hafið er uppspretta ómældra tækifæra og um leið lífæð okkar fyrirtækis. Auðlindir hafsins eru vandmeðfarnar og þurfa að vera í góðu jafnvægi svo að þær megi gefa af sér. Sömuleiðis þurfum við sjálf að halda gullnu jafnvægi á milli eigin auðlinda – starfsþróttar, heilsu og andlegrar vellíðunnar.

Eskja vill leggja sig fram við að skapa starfsmönnum sínum góð starfsskilyrði og er starfsmannastefna þessi liður í því. Hún lýsir ennfremur þeim væntingum og kröfum sem starfsfólk og stjórnendur geta gert hverjir til annars. Tilmæli og hugmyndir að uppfærslum á stefnunni eru vel þegnar því mikilvægt er að stefnan sé ekki stöð, heldur breytist með nýjum tímum og áherslum.

LEIÐARLJÓS

Í leiðarljósi Eskju, HAF, heilindi-atorka-færni felst að:

Stjórnendur:

 • Virði alla starfsmenn sína, viðhorf þeirra og skoðanir
 • Ástundi heiðarleika í starfi sínu í hvívetna
 • Virki starfsfólk sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt
 • Virki starfsfólk til að taka þátt í og móta starfsemi fyrirtækisins
 • Upplýsi starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð
 • Stuðli að því að starfsmenn auki þekkingu sína og starfshæfni

Starfsmenn:

 • Virði samstarfsmenn sína og starfsreglur fyrirtækisins
 • Ástundi heiðarleika í starfi sínu í hvívetna
 • Virki krafta sína á jákvæðan og uppbyggilegan hátt
 • Sinni starfi sínu af ábyrgð og metnaði
 • Séu viðbúnir breytingum og taki þátt í þeim
 • Viðhaldi og auki þekkingu sína

ÁBYRGÐ OG SKYLDUR

Forstjóri ber ábyrgð á starfsmannamálum Eskju. Yfirmenn sinna öllum almennum starfsmannamálum, en sviðstjórar hafa yfirumsjón með þeim, hver innan síns sviðs, og geta því starfsmenn einnig leitað til þeirra.

Stjórnendum Eskju ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti, sem felast m.a. í virku upplýsingastreymi, valddreifingu og ábyrgð, virkum samskiptum og jákvæðu viðhorfi til starfsmanna fyrir vel unnin verk. Stjórnendur skulu ávallt leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru hverju sinni.

Stjórnendur bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna. Stjórnendur skulu vinna að þeim markmiðum sem sett eru, en jafnframt eiga þeir að gera starfsmönnum kleift að taka faglegum framförum. Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að síbreytilegum kröfum, svo sem vegna tæknilegrar og faglegrar þróunar, eða vegna skipulagsbreytinga og vera reiðubúnir að þjálfa sig til breyttra og nýrra verkefna. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanna og stjórnenda að viðhalda og bæta þekkingu sem nauðsynleg er starfseminnar vegna. Æskilegt er að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni til að auka líkamlega og andlega velferð.

RÁÐNINGAR OG TILFÆRSLUR

Ráðningar skulu byggja á starfsreynslu, hæfni og menntun. Við val starfsmanna skal ávallt hafa hliðsjón af gildandi jafnréttisstefnu fyrirtækisins.

Eskja vill skapa starfsmönnum möguleika á samfelldum starfsferli og leitast því við að bjóða laus störf starfsfólki sem sýnt hefur áhuga á að fá tilfærslu innan fyrirtækisins. Að öðrum kosti eru laus störf auglýst á hefðbundinn hátt.

Eskja leitast við að búa starfsmenn undir tilfærslur við hagræðingar sem þjóna heildarhagsmunum fyrirtækisins. Starfsmenn eru því hvattir til að taka frumkvæði, auka hæfni sína til að takast á við ný verkefni og nýta þau tækifæri sem bjóðast til starfsþróunar innan fyrirtækisins.

MÓTTAKA

Í nýrri starfsmannastefnu Eskju er leitast við að taka skipulega á móti nýráðnu starfsfólki. Á fyrsta starfsdegi fá starfsmenn fræðslu um fyrirtækið og handbók með almennum upplýsingum.

Markmiðið með skipulegri kynningu er að starfsmenn nái sem fyrst tökum á verkefnum sínum og fái upplýsingar um fyrirtækið og góða mynd af starfsemi þess. Þá er einnig lögð áhersla á að nýr starfsmaður kynnist samstarfsfólki sínu og þekki rétt sinn og skyldur.

STARFSLÝSINGAR

Eskja stefnir að því að hafa starfslýsingar fyrir öll störf, hvort sem þau eru tímabundin eða ótímabundin. Starfslýsingu gerir stjórnandi, sviðstjóri og/eða vinnslustjóri. Starfslýsingar skulu liggja fyrir þegar ráðið er í störf og þær endurskoðaðar þegar breytingar verða á störfum og við nýráðningar. Starfslýsing kveður á um ábyrgðarsvið og helstu verkefni.

UPPLÝSINGAR

Eskja leitast við að starfsmenn hafi ávallt greinargóðar upplýsingar um starfsemina. Þessar upplýsingar eru veittar á reglulegum starfsmannafundum, í fréttabréfi fyrirtækisins og á heimasíðunni www.eskja.is.

MENNTASMIÐJA

Eskja leggur áherslu á símenntun starfsmanna sinna. Í menntasmiðju Eskju er starfsmönnum gefinn kostur á fræðslu sem eykur þekkingu og faglega hæfni sem nýtist í leik og starfi. Markmiðið með símenntun er að starfsmaðurinn verði hæfari til að sinna starfi sínu og til að takast á við ný verkefni þegar þau ber að höndum. Þannig getur hann orðið virkari þátttakandi í þróun vinnuferla og við að leita leiða til hagræðingar. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanna sem stjórnenda að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er starfsins vegna.

ÖRYGGISMÁL

Eskja leggur mikið upp úr vinnuvernd og öryggismálum. Starfsmönnum er skylt að fylgja lögum um öryggi og aðbúnað á vinnustað, ásamt þeim reglum sem fyrirtækið setur. Það er jafnt á ábyrgð stjórnenda sem starfsmanna að farið sé að þeim kröfum sem gerðar eru um öryggi og aðgát í starfi.

VINNUTÍMI

Eskja leggur áherslu á stundvísi og viðveru á umsömdum vinnutíma. Stjórnanda ber að fylgjast með mætingum starfsmanna sinna og bregðast við þegar með þarf. Fjarvera á vinnutíma og brotthvarf af vinnustað á leyfis, áður en reglulegum vinnudegi lýkur, er óheimil.

KJARAMÁL

Eskja fer í launa-, kjara- og réttindamálum að ákvæðum kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga.

JAFNRÉTTISMÁL

Stefna Eskju í jafnréttismálum er sú að hæfni skuli ráða vali í lausar stöður og að fyllsta jafnréttis sé gætt milli kynjanna. Leitast verði við að jafna hlutfall kvenna og karla í hinum ýmsu störfum innan fyrirtækisins. Greiða skal jöfn laun og veita sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Konur og karlar skulu eiga jafnan aðgang að starfsmenntun og þjálfun. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist, svo og kynferðisleg áreitni eða einelti.

FJÖLSKYLDUSTEFNA

Eskja leitast við að skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar eins og kostur er. Með fyrirfram skilgreindum vinnutíma, starfslýsingum og sveigjanleika skal stuðla að auknum lífsgæðum starfsmanna og hagsbótum fyrir starfsemina. Það er fyrirtækinu mikil ánægja að tilkynna að fest hafa verið kaup á sumarbústað til þess að auka á fjölbreytni í orlofsferðum. Starfsfólk með yfir þriggja ára samfellda starfsreynslu getur sótt um afnot af sumarbústað Eskju yfir orlofstímann.