Ferskur fiskur beint af miðunum

Ferskur fiskur beint af miðunum

Við sérhæfum okkur í hágæðavörum sem framleiddar eru úr síld, kolmunna, makríl og loðnu sem við veiðum á miðunum við Íslandsstrendur. Einnig veiðum við ýsu og þorsk allan ársins hring. Hátæknivætt frystihús okkar á Eskifirði hefur vinnslugetu upp á 900 tonn á sólarhring.

Loðna

Loðnan er uppsjávarfiskur sem leitar í grunnsævi til að hrygna. Hún er algeng í köldum sjó á norðurhveli jarðar. Fjórir sjálfstæðir loðnustofnar finnast í Norður-Atlantshafi og Barentshafi og íslenska loðnan er einn þeirra. Við heilfrystum loðnu og nýtum hana einnig til framleiðslu á hrognum, mjöli og lýsi.

Veiðitímabil

1. jan. - 20. mars

Fræðiheiti

Mallotus villosus

Makríll

Makríll er hraðsyndur úthafsfiskur sem er algengur í svölum sjó og heldur sig í torfum nálægt yfirborði. Hann hrygnir frá maí til júlí og heldur þá í ætisleit norður með Noregi og upp til Íslands. Við heilfrystum makrílinn, hausskerum og flökum og nýtum allan afskurð til mjöl- og lýsisframleiðslu.

Veiðitímabil

15. júlí - 15. okt.

Fræðiheiti

Scomber scombrus

Síld

Síld er einn algengasti fiskur á norðurhveli jarðar og finnst allt í kringum Ísland. Í austanverðu Atlantshafi eru heimkynni hennar frá Svalbarða og Hvítahafi suður til Biscayaflóa við Frakkland og Spán. Við heilfrystum og flökum síldina og nýtum allan afskurð til mjöl- og lýsisframleiðslu.

Veiðitímabil

1. okt. - 15. nóv.

Fræðiheiti

Clupea harengus

Kolmunni

Kolmunni er hvítur fiskur af þorskaætt. Sá kolmunni sem veiðist við Íslandsstrendur lifir aðallega í Norðaustur-Atlantshafi, eða frá Svalbarða suður til Marokkó. Á miðunum við Ísland er kolmunni veiddur við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina. Við nýtum kolmunna til mjöl- og lýsisvinnslu.

Veiðitímabil

1. jan. - 31. des.

Fræðiheiti

Micromesistius poutassou

Ýsa

Heimkynni ýsunnar eru í N-Atlantshafi og hún finnst allt í kringum Ísland, einkum þó við suður- og suðvesturströndina. Við sérhæfum okkur í vinnslu á ferskum ýsuafurðum og getum einnig afhent þær lausfrystar. Ýsan er veidd við suðurströndina fram á sumar en þá veiðum við hana fyrir austan til ársloka.

Veiðitímabil

1. jan. - 31. des.

Fræðiheiti

Melanogrammus aeglefinus

Þorskur

Atlantshafsþorskurinn er algengur allt í kringum Ísland. Við sérhæfum okkur í vinnslu á ferskum þorskafurðum og getum afhent sömu vörur lausfrystar. Við veiðum þorskinn við sunnanvert landið á fyrri helmingi ársins og við austurströndina á seinni hluta þess.

Veiðitímabil

1. jan. - 31. des.

Fræðiheiti

Gadus morhua

Fiskimjöl og lýsi

Aflann sem ekki er frystur nýtum við til framleiðslu á fiskimjöli og olíu í fiskimjölsverksmiðjunni okkar. Afköst eru 1.000 tonn af hráefni á sólarhring og hægt er að geyma allt að 20.000 tonn af mjöli og lýsi í geymslum verksmiðjunnar í einu. Hún er búin fyrsta flokks tæknibúnaði og hægt er með loftþurrkun við lágan hita að framleiða þar hágæðamjöl, sem meðal annars er notað í fiskeldisfóður.