Hágæðavörur úr íslenskum fiski
Eskja er fjölskyldufyrirtæki á Eskifirði sem hefur verið leiðandi afl í íslenskum sjávarútvegi síðustu 70 árin. Fyrirtækið hét áður Hraðfrystihús Eskifjarðar og var stofnað 8. maí 1944 í því skyni að skjóta styrkum stoðum undir fábreytilegt atvinnulíf bæjarins. Stofnendur félagsins voru um þrjú hundruð einstaklingar og fyrirtæki á staðnum. Alla tíð síðan hefur Eskja verið kjölfestan í atvinnulífi Eskifjarðar. Félagið hefur vaxið og dafnað í áranna rás og starfsmenn fyrirtækisins eru í dag um 100 talsins. Markmið okkar er að standa í fremstu röð, nota ávallt bestu framleiðslutækni sem völ er á og framleiða hágæðavörur úr íslenskum fiski fyrir kröfuhörðustu markaði heims. Þá leggjum við einnig ríka áherslu á fræðslu og endurmenntun starfsfólks okkar. Eskja hefur frá fyrstu tíð haft það að leiðarljósi að umgangast fiskimiðin umhverfis Ísland af ábyrgð og virðingu, í samræmi við lög og reglur og að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.
Áhöfnin á Jóni sífulla - Þetta skip var eign Jóns Kjartanssonar hf. sem var hlutafélag í eigu bræðranna Aðalsteins Jónssonar og Kristins Jónssonar. Það var í krafti auðs þess félags sem þeir bræður keyptu meirihluta í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar.
Lilli og Palli á hálum ís - Hólmanes var skip í eigu Hraðfrystihúss Eskifjarðar og var annað skip þess félags sem bar þetta nafn. Það aflaði fyrir félagið á íshafsárumum 1965-1968.
Heillavon Hraðfrystihússins - Hólmanes, fyrsta skip Hraðfrystihúss Eskifjarðar, var smíðað í Noregi. Því var ætlað að sjá landvinnslu fyrir hráefni til frystingar og gerði það fyrstu árin, en datt svo inn í síldarævintýrið sem hófst um 1960 og lauk 1968.
Nútímalegt hátæknifyrirtæki
Eskja starfrækir nú fimm skip, fiskimjölsverksmiðju og eina háþróuðustu og skilvirkustu uppsjávarvinnslu sem fyrirfinnst í Norður-Atlantshafi. Nýtt uppsjávarfrystihús okkar er 7.000 m2 að stærð og býr yfir vinnslugetu upp á 900 tonn á sólarhring. Þá er vinnslugeta fiskimjölsverksmiðjunnar um 1.000 tonn á sólarhring. Starfsemi okkar er knúin með íslensku rafmagni sem framleitt er úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum.
Þorsteinn Kristjánsson
Forstjóri
Þorsteinn Kristjánsson er forstjóri Eskju og hefur starfað hjá fyrirtækinu í næstum fjóra áratugi. Þorsteinn tók við stöðu forstjóra árið 2009 en þar áður gegndi hann stöðu stjórnarformanns Eskju og var jafnframt skipstjóri hjá félaginu. Þorsteinn brautskráðist með skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1976 og hefur mikla starfsreynslu í íslenskum sjávarútvegi.
Erna Þorsteinsdóttir
Stjórnarformaður
Erna Þorsteinsdóttir varð stjórnarformaður Eskju árið 2009. Hún nam viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti við Háskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan sem viðskiptafræðingur árið 2016. Hún var annar eigenda útflutningsfyrirtækisins Fiskimiða ehf. sem varð dótturfyrirtæki Eskju árið 2009 og nefnist nú Eskja Sales & Export. Erna gegnir jafnframt stöðu framkvæmdastjóra þar í dag.
Páll Snorrason
Framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs
Páll Snorrason er framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2006. Hann útskrifaðist með cand.oecon gráðu frá Háskóla Íslands árið 2004 og lauk MBA-námi frá IESE í Barcelona árið 2015. Hann starfaði á endurskoðunarsviði KPMG og sem sérfræðingur á fjármálasviði hjá Actavis Group áður en hann kom til starfa hjá Eskju.
Sigrún Ísaksdóttir
Skrifstofustjóri
Sigrún Ísaksdóttir hóf störf sem skrifstofustjóri Eskju í febrúar árið 2018. Áður vann hún í áratug sem þjónustustjóri Arion banka á Egilsstöðum. Sigrún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 2005. Hún er vottaður fjármálaráðgjafi og útskrifaðist einnig með meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2017.
Baldur Einarsson
Útgerðarstjóri
Baldur Einarsson tók við sem útgerðarstjóri Eskju árið 2017. Hann útskrifaðist sem sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 2007 og starfaði sem aðstoðarsölustjóri Atlantic Fresh í Grimsby og Hull milli 2007 og 2008. Baldur var háseti á frystiskipi Eskju, Aðalsteini Jónssyni, frá 2008 til 2016. Hann starfaði svo sem sérfræðingur hjá MAST frá árinu 2016 þegar hann tók við stöðu útgerðarstjóra Eskju.
Benedikt Jóhannsson
Yfirmaður landvinnslu
Benedikt Jóhannsson er yfirmaður landvinnslu hjá Eskju. Hann hefur mikla reynslu af störfum fyrir fyrirtækið , hóf þar fyrst störf árið 1979 sem aðstoðarverkstjóri. Síðan hefur hann gegnt ýmsum störfum fyrir félagið, þar á meðal sem verkstjóri, framleiðslustjóri, útgerðarstjóri og nú sem yfirmaður landvinnslunnar.
Haukur Jónsson
Rekstrarstjóri mjöl- og lýsisvinnslu
Haukur Jónsson er rekstrarstjóri mjöl- og lýsisvinnslu Eskju. Hann hóf störf í vinnslunni árið 1978 og gegndi ýmsum störfum þar áður en hann var ráðinn rekstrarstjóri hennar árið 1996. Haukur situr jafnframt í stjórn félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda fyrir hönd Eskju.
Hlynur Ársælsson
Rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss
Hlynur Ársælsson er rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju og hefur stundað sjómennsku frá unglingsárum. Hann vann á öllum skipum Eskju á árunum 1991 til 2005 en söðlaði þá um og vann hjá Samherja í Afríku í áratug. Hann sneri aftur til Eskju árið 2016 og hóf störf sem verkstjóri í nýrri uppsjávarvinnslu fyrirtækisins. Í framhaldi af því tók hann svo við sem rekstrarstjóri vinnslunnar árið 2017.
Tómas Valdimarsson
Yfirmaður viðhaldsmála
Tómas Valdimarsson er yfirmaður viðhaldsmála hjá Eskju. Tómas útskrifaðist sem meistari í vélvirkjun árið 1987 og hefur mikla reynslu bæði til sjós og lands. Tómas var svæðisstjóri hjá Hamri á árunum 2001-2007. Hann starfaði síðan á frystiskipinu Aðalsteini Jónssyni en eftir það fór hann til Afríku og starfaði þar í tvö ár á frystiskipi. Tómas hóf svo störf við uppsjávarvinnslu Eskju árið 2016 og hefur gengt stöðu yfirmanns viðhaldsmála hjá Eskju frá ársbyrjun 2020.
Uppsjávarvinnsla fyrirtækisins er ein sú fullkomnasta í Norður-Atlantshafi.
Jafnlaunastefna Eskju
Eskja hefur sett sér jafnlaunastefnu sem á að tryggja að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá fyrirtækinu.
Lestu meira
Aðalsteinn Jónsson
SU-11
Smíðaár: 2004
Stærð: 4419 brúttótonn
Lestarrými: 2200 rúmmetrar
Jón Kjartansson
SU-111
Smíðaár: 2003
Stærð: 2424,3 brúttótonn
Lestarrými: 2170 rúmmetrar
Guðrún Þorkelsdóttir
SU-211
Smíðaár: 1999
Stærð: 1773 brúttótonn
Lestarrými: 1679 rúmmetrar
Jón Kjartansson
SU-311
Smíðaár: 1978
Stærð: 1692,5 brúttótonn
Lestarrými: 2500 rúmmetrar