Virðing fyrir lífríki sjávar og náttúrunni

Sjálfbær auðlind úr hreinu hafi

Fiskveiðistjórnunarkerfið á miðunum við Íslandsstrendur grundvallast á lögum nr. 38/1990. Það felur í sér að aflamarki til veiða á kvótabundnum tegundum er úthlutað til eins fiskveiðiárs í senn. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeildar hlutaðeigandi skips og ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um leyfilegan heildarafla í einstökum tegundum á fiskveiðiárinu. Markmiðið er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna. Eskja hefur alla tíð lagt ríka áherslu á að umgangast hafið og lífríki þess af virðingu og ábyrgð í samræmi við lög og reglur. Við erum hluti af Iceland Sustainable Fisheries (ISF) sem aflar vottana á veiðafæri og fiskistofna sem nýttir eru í hafinu við Ísland. Markmiðið er að sýna kaupendum og neytendum fram á að við Íslandsstrendur séu ástundaðar sjálfbærar fiskveiðar og að mikil vinna er lögð í að tryggja verndun fiskistofnanna sem eru uppspretta hagsældar í landinu.

Nútímaleg og umhverfisvæn starfsemi

Eskja vinnur ötullega að því að allir þættir í starfsemi fyrirtækisins fari fram í góðri sátt við umhverfið. Ávallt er stefnt að því að hráefni og orkugjafar séu nýttir til fullnustu. Við leitumst við að nota umhverfisvænar umbúðir, efni og rekstrarvörur og reynum að halda losun og úrgangi sem verður til í starfseminni í lágmarki. Allt starfsfólk Eskju er meðvitað um umhverfisstefnu fyrirtækisins og fær tækifæri til þess að taka þátt í mótun og þróun hennar. Bæði fiskimjölsverksmiðja og frystihús Eskju eru að öllu leyti knúin með rafmagni sem unnið er úr endurnýjanlegum orkugjöfum og því er öll landvinnsla fyrirtækisins sjálfbær og umhverfisvæn. Hátæknivædd landvinnsla Eskju er ein sú fullkomnasta og umhverfisvænasta í öllu Norður-Atlantshafi. Fiskimjölsverksmiðjan var endurbyggð og rafvædd árið 2013 og uppsjávarfrystihúsið var tekið í notkun árið 2017.

Við erum stolt af því að búa á Eskifirði. Hér er heimahöfnin okkar með góðu starfsfólki á sjó og landi. Stuðningur samfélagsins skiptir okkur miklu máli.
Þorsteinn Kristjánsson - Forstjóri

Uppbyggingarafl í samfélaginu

Eskja er eitt af leiðandi sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og hefur verið kjölfestan í atvinnulífi Eskifjarðar í 70 ár. Við tökum hlutverk okkar í samfélaginu alvarlega og leggjum áherslu á að styðja uppbyggileg samfélagsverkefni með því að veita styrki og leggja okkar af mörkum til góðgerðar- og mannúðarsamtaka.

Samfélagsskýrsla

Í samfélagsskýrslu Eskju var viðmið GRI (Global Reporting Initiative) um samfélagslega ábyrgð haft til hliðsjónar við hönnun á lykilmælikvörðum auk þess sem kolefnisspor er mælt samkvæmt forskrift SFS/Nasdaq. Eskja gefur út samfélagsskýrslu árlega en með útgáfu á skýrslunni eykur Eskja gagnsæi í starfseminni, meðal annars með því að gera grein fyrir árangri, upplýsingum um umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir auk áhrifa á samfélag, mannauð og efnahag. Eskja vill vera fyrirmynd í samfélagsábyrgð og hefur markað sér stefnu sem felst meðal annars í að draga markvisst úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði beint frá starfseminni og í gegnum virðiskeðjuna. Félagið vill hafa jákvæð áhrif á samfélagið og stuðla að góðum vinnustað þar sem allir fá jöfn tækifæri til að vaxa og dafna.